Boðað er til rafrænna íbúafunda um sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.
Á fundunum mun samstarfsnefndin draga upp mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út og leita eftir sjónarmiðum íbúa. Endanleg sameiningartillaga tekur mið af fundunum og verður kynnt með vorinu. Kosið verður um tillöguna 5. júní.
Í ljósi samkomutakmarkana fara fundirnir fram rafrænt og upptökur verða aðgengilegar að þeim loknum. Þau sem kjósa að mæta frekar á fundarstað geta sótt fundina í félagsheimilunum Skjólbrekku og Breiðamýri og í Stórutjarnaskóla. Þar verður hægt að fylgjast með kynningum og taka þátt í umræðum. Hægt er að tengjast inn á rafrænan íbúafund með því að smella á heiti viðkomandi fundar.
Fundardagskrá
Þriðjudagur 2. feb. kl. 20:00 ─ Nýsköpun í norðri. Atvinnulíf, umhverfi og byggðaþróun.
Streymi: https://fb.watch/3pqyImHhMf/
Fimmtudagur 4. feb. kl. 16:30 ─ Fræðslu- og félagsþjónusta. Menning, íþróttir og tómstundamál.
Þriðjudagur 9. feb. kl. 20:00 ─ Skipulags- og umhverfismál.
Fimmtudagur 11. feb. kl. 16:30 ─ Stjórnskipulag og fjármál.
Þau sem þurfa aðstoð við að tengjast fundum eru hvött til að leita aðstoðar ættingja og vina, eða á skrifstofu hlutaðeigandi sveitarfélags.
Íbúar á öllum aldri eru hvattir til þess að taka þátt og láta sig málið varða!
Samstarfsnefnd Þingeyings.
Íbúafundirnir verða haldnir sem fjarfundir í Zoom-fjarfundarkerfinu. Slóð á fundinn er aðgengileg á thingeyingur.is og vefsíðum og Facebook síðum sveitarfélaganna fyrir hvern fund.
Hægt að fylgjast með kynningum í streymi á Facebook-síðu sveitarfélaganna, en þeir sem það gera geta ekki takið þátt í umræðum. Tenglar á streymi verða á thingeyingur.is og á heimasíðum sveitarfélaganna.
Hægt er að fylgjast með og taka þátt í hvaða snjalltæki sem er. Besta upplifunin fæst ef fylgst er með í tölvu. Gott er að setja Zoom-hugbúnaðinn upp á þá tölvu eða snjalltæki sem þú ætlar að nota í góðan tíma áður en fundurinn hefst.
Zoom fyrir borðtölvur er á síðunni https://zoom.us/download en Zoom-smáforrit fyrir Android snjalltæki eru á Play Store og á App Store fyrir iPhone og iPad. Einnig er hægt að nota vefviðmót fyrir Zoom (Zoom Web Client) en virkni þess er takmarkaðri en virkni þess hugbúnaðar sem settur er upp á snjalltækinu.
Fundir hefjast ýmist kl. 16.30 eða kl. 20:00. Við mælum með að fólk mæti snemma fyrir framan skjáinn svo tími gefist til að bregðast við tæknilegum vandkvæðum sem geta komið upp við innskráningu. Aðgætið að hátalarar og hljóðnemi séu tengdir við tölvuna/snjalltækið og virki sem skyldi. Í umræðuhópunum gott að þátttakendur séu með virka myndavél og sjái hver annan.
Þátttakendur eru beðnir að ganga úr skugga um að nafn þeirra birtist með myndinni af þeim til að auðvelda skipuleggjendum að skipta í umræðuhópa. Ef breyta þarf nafni er það gert með því að smella á punktana þrjá sem birtast þegar bendillinn er dreginn yfir myndina og velja "rename".
Hægt verður að senda spurningar til stjórnenda fundarins með skilaboðum á spjalli sem er innbyggt í Zoom. Ýmist er hægt að senda skilaboð á alla fundarmenn eða velja einstaka fundarmenn, t.d. fundarstjórnendur.
Ef þú ert með veika tengingu á þráðlausu neti þá mælum við með að þú tengir þig með netsnúru.
Þeir sem þurfa aðstoð en eiga þess ekki kost að leita til ættingja og vina um aðstoð geta leitað til starfsmanna á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags. Athugið þó að það þarf að gerast á skrifstofutíma fyrir fund.
Kynningarnar frá fundunum verða gerðar aðgengilegar á thingeyingur.is að fundum loknum.