Spurt og svarað

 • Hvað myndi nýtt sveitarfélag heita?

  Nafn nýs sveitarfélags liggur ekki fyrir. Sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags myndi velja nafnið, en líklegt er að haldin yrði íbúakosning eða könnun á meðal íbúa þar sem valið yrði á milli tillagna.

 • Hvað gerist ef tillagan er samþykkt?

  Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga sérstaka stjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hver sveitarstjórn skipar þrjá fulltrúa í stjórnina. Hlutverk stjórnarinnar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

 • Er atkvæðagreiðslan bindandi?

  Já, niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir.

 • Hverjir mega greiða atkvæði?

  Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu sem um ræðir og hafa náð 18 ára aldri á kjördag geta kosið um sameiningu. Danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag hafa kosningarétt. Aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag hafa einnig kosningarétt. Miðað er við skráningu lögheimilis þremur vikum fyrir kjördag.

 • Fá íbúar að taka þátt í að móta tillögu um sameiningu?

  Já. Skipaðir verða starfshópar sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna tveggja. Hver hópur fjallar um afmarkaða þætti starfseminnar s.s. stjórnsýslu og fjármál. Síðar í ferlinu verða haldnir opnir íbúafundir þar sem niðurstöður starfshópanna verða kynntar og íbúar geta komið sjónarmiðum sínum, athugasemdum og hugmyndum á framfæri.

 • Hvað verður um þorrablótin ef sameining verður samþykkt?

  Þorrablótin eru ekki haldin á vegum sveitarfélaganna. Sameining sveitarfélaganna hefur því ekki bein áhrif á það hvort þau verða haldin áfram á hverjum stað fyrir sig.

 • Verða íþróttafélögin sameinuð?

  Sveitarfélögin hafa ekki áhrif á það hvort sjálfstæð og frjáls félög sameinast, hvort sem það eru íþróttafélögin, björgunarsveitir eða önnur félög. 

Getum við bætt efni síðunnar?