Aðdragandinn

Aðdragandi

Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit hafa átt í miklu samstarfi sín á milli síðustu ár. Sveitarfélögin eiga með sér formlegt samstarf um skipulags- og byggingamál og brunavarnamál og eru auk þess aðilar að ýmsum samstarfsverkefnum. Í Skútustaðahreppi búa um 500 íbúar og í Þingeyjarsveit rúmlega 900 íbúar. Sveitarfélögin liggja saman og eiga margt sameiginlegt, sé litið til viðfangsefna, atvinnulífs og mannlífs. Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar gætu falist tækifæri í því að sameina sveitarfélögin tvö í eitt öflugra sveitarfélag. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa átt viðræður um að skipuð verði nefnd til að kanna kosti hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaganna tveggja. Slík nefnd fengi það hlutverk að kortleggja hugsanlegan ávinning, veikleika og helstu viðfangsefni slíkrar endurskipulagningar í víðtæku samráði við íbúa. Við undirbúning málsins var leitað eftir ráðgjöf RR ráðgjafar sem hefur sinnt verkefnastjórn og annarri ráðgjöf við verkefnið Sveitarfélagið Austurland og undirbúning sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar, sem nú ber heitið Suðurnesjabær. Þá hafa ráðgjafar RR ráðgjafar reynslu af sameiningu annarra sveitarfélaga. Í júlí 2017 kom út skýrslan Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga sem unnin var að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Í skýrslunni komu fram nokkuð afgerandi tillögur meðal annars um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í framtíðinni. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur markað þá stefnu að innan fárra ára verði ekkert sveitarfélag á Íslandi með færri en 1.000 íbúa. Ráðherra kynnti stefnu sína á Landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga í október 2018 og hefur fylgt henni eftir með skipan nefndar um framtíð sveitarstjórnarstigsins. Sú nefnd hefur nýlega kynnt svokallaða Grænbók þar sem almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótuninni. Á haustdögum er fyrirhugað aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga um stefnumörkunina. Fulltrúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa átt fundi með fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fá upplýsingar um aðkomu ráðuneytisins og stuðning Jöfnunarsjóðs við verkefnið. Verði tekin ákvörðun um að skipa nefnd um mögulega sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga, þá mun Jöfnunarsjóður veita framlög sem munu standa undir kostnaði við verkefnið. Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er skynsamlegt að sveitarfélögin hefji formlegar sameiningarviðræður sem munu leiða til þess að tillaga um sameiningu verði lögð fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu. Á þann hátt er valdið sett í hendur íbúanna. Tillagan verður unnin með virkri þátttöku íbúa m.a. á íbúafundum þar sem tekin verður umræða um tækifæri og áskoranir sem geta falist í sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Hlutverk kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélaganna er að undirbúa tillöguna eins vandlega og kostur er og kynna verkefnið svo íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun. Í því ljósi er eftirfarandi tillaga lögð fram til afgreiðslu í sveitarstjórnum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Tillaga fyrir sveitarstjórnir

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps/Þingeyjarsveitar samþykkir samhljóða að sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar skipi þrjá fulltrúa hvort sveitarfélag og tvo til vara í samstarfsnefnd sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórar skulu hafa seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum samstarfsnefndar, en lagt er til að Róbert Ragnarsson hjá RR ráðgjöf verði verkefnisstjóri. Markmiðið er að sameining sveitarfélaganna leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum. Stefnt skal að því að samstarfsnefnd skili áliti sínu til sveitarstjórna fyrir lok árs 2020. Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma. Tillaga þessi er lögð fram í kjölfar viðræðna fulltrúa sveitarfélaganna og samráðs við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps skipar Helga Héðinsson oddvita, Ragnhildi Hólm Sigurðardóttur og Halldór Þorlák Sigurðsson til setu fyrir sína hönd sem aðalmenn í samstarfsnefnd og Friðrik Jakobsson og Elísabet Sigurðardóttur til vara. Sveitarstjórum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er falið að boða samstarfsnefnd til fyrsta fundar, þar sem nefndin skiptir með sér verkum. Stefnt er að kynningarfundum þann 20. júní, kl. 17.00 í félagsheimilinu Skjólbrekku í Skútustaðahreppi og í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsveit kl. 20.00. Á fundunum verður ferli verkefnisins kynnt og íbúum gefst tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri strax í upphafi.

Samþykkt samhljóða í sveitarstjórnum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar 13. júní 2019.

 

Markmið:

Markmið verkefnisins er að undirbúa tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Skútustaða­hrepps og Þingeyjarsveitar til afgreiðslu sveitarstjórna og í kjölfarið atkvæðagreiðslu meðal íbúa í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Markmið  samstarfsnefndar:

Að draga upp skýra og hlutlausa mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út og draga fram kosti og galla sameiningar til að auðvelda kjósendum að taka afstöðu til spurningarinnar um sameiningu.

 

Ef af sameiningunni verður:

• Um 1.400 íbúar.
• Landmesta sveitarfélag á Íslandi með um 12% af flatarmáli landsins.
• Sterkur fjárhagur.
• Áhersla á umhverfismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?