Spurt og svarað

 • Hvað myndi nýtt sveitarfélag heita?

  Nafn nýs sveitarfélags liggur ekki fyrir. Sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags myndi velja nafnið, en líklegt er að haldin yrði íbúakosning eða könnun á meðal íbúa þar sem valið yrði á milli tillagna.

 • Hvað gerist ef tillagan er samþykkt?

  Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga sérstaka stjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hver sveitarstjórn skipar þrjá fulltrúa í stjórnina. Hlutverk stjórnarinnar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

 • Er atkvæðagreiðslan bindandi?

  Já, niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir.

 • Hverjir mega greiða atkvæði?

  Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu sem um ræðir og hafa náð 18 ára aldri á kjördag geta kosið um sameiningu. Danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag hafa kosningarétt. Aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag hafa einnig kosningarétt. Miðað er við skráningu lögheimilis þremur vikum fyrir kjördag.

 • Fá íbúar að taka þátt í að móta tillögu um sameiningu?

  Já. Skipaðir verða starfshópar sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna tveggja. Hver hópur fjallar um afmarkaða þætti starfseminnar s.s. stjórnsýslu og fjármál. Síðar í ferlinu verða haldnir opnir íbúafundir þar sem niðurstöður starfshópanna verða kynntar og íbúar geta komið sjónarmiðum sínum, athugasemdum og hugmyndum á framfæri.

 • Hvað verður um þorrablótin ef sameining verður samþykkt?

  Þorrablótin eru ekki haldin á vegum sveitarfélaganna. Sameining sveitarfélaganna hefur því ekki bein áhrif á það hvort þau verða haldin áfram á hverjum stað fyrir sig.

 • Verða íþróttafélögin sameinuð?

  Sveitarfélögin hafa ekki áhrif á það hvort sjálfstæð og frjáls félög sameinast, hvort sem það eru íþróttafélögin, björgunarsveitir eða önnur félög. 

 • Hvernig verður nafn sameinaðs sveitarfélags ákveðið?

  Það verður ákveðið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum. Eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

 • Af hverju er reiknað með fjölgun fólks í Mývatnssveit en fækkun í Þingeyjarsveit á næstu 10 árum?

  Gögnin byggja á mannfjöldaspá Byggðastofnunar. Sjá nánar https://www.byggdastofnun.is/is/utgefid-efni/byggdabrunnur

 • Hvernig munu 9 fulltrúar tryggja dreifingu sveitarstjórnarmanna um svæðið?

  Það verður ekki tryggt, en líkurnar aukast með fleiri fulltrúum.

 • Eru 9 sveitarsjórnarnenn full vel í lagt fyrir ekki stærra sveitarfélag?

  Að mati nefndarinnar er æskilegt að byrja með 9 fulltrúa, sem eykur líkur á að fulltrúar komi sem víðast af svæðinu. Þess utan er stefnt að tengingu fulltrúa við nefndarstörf og ráðlegt að einnig verði svigrúm fyrir fulltrúa sem etv. geta ekki sinnt jafn víðtæku hlutverki.

 • Er stefnt að því að dreifa þjónustustöðvum meira út um sveitarfélagið? t.d. heilsugæslu stöðvum með læknamóttöku? nú er engin slík vestan Fljótsheiðar, en slíkar stöðvar auka öryggi íbúa og efla byggð

  Heilbrigðisþjónustan er á ábyrgð ríkisins, en sveitarfélagið hefur lagt áherslu að styrkja og bæta heilsugæsluna með aukinni viðveru lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

 • Er áætlun í gangi varðandi meiri jöfnuð innan sveitarfélagsins t.d. aukið aðgengi að hitaveitu? og þannig jafnari húshitunarkostnaði?

  Auk almennra áherslna um aukin lífsgæði í sveitarfélögunum sem birtast m.a. í ýmsum stefnum þá er sérstök vinna í gangi sem lítur að greiningu orkukosta í Skútustaðahreppi. Sérstakur stuðningur fékkst til verksins frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna COVID, en sú vinna mun nýtast þvert á sveitarfélögin.

 • Teljast þessi 100 og eitthvað börn sem stunda nám árlega og búa á Laugum ekki með í íbúafjöldanum í þingeyjarsveit?

  Þeir nemendur sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu telja, en aðrir ekki. Líklega eru margir nemenda á heimavist enn með lögheimili hjá forsjáraðilum.

 • Gert er ráð fyrir framlagi frá ríkinu vegna sameiningar. Er það ekki rétt skilið hjá mér að það er eingreiðsla?

  Það er eingreiðsla í þeim skilningi að fjárhæðin er ákveðin á sameiningarári og greiðist á næstu 7 árum, og endurnýjast ekki.

 • Hvernig ætlið þið að hvetja ungt fólk til að flytja “heim” aftur ?

  Með því að skapa samfélag sem mætir þörfum ungs fólks. Þar er t.d. átt við fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri, húsnæði, ljósleiðarara og viðunandi samgöngumannvirki. Einnig samfélag sem er stolt af sögu sinni og menningu og býr yfir áhugaverðu og líflegu mannlífi. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi skólanna hvað þetta varðar.

 • Menning er fjarverandi í þessari tillögu. Vantar stefnu í þeim málum?

  Það er rangt. Rík hefð er fyrir menningu í báðum sveitarfélögum og menning er nauðsynleg fyrir öll samfélög. Starfshópur um menningu, tómstundir og íþróttir skilaði inn minnisblaði sem er aðgengilegt á www.thingeyingur.is þar sem rýnt er í stöðu þessara málaflokka. Það kemur meðal annars fram þar að menningarstefna sé til staðar í Skútustaðahreppi og það ætti að vera nokkuð auðvelt að byggja nýja stefnu sameinaðs sveitarfélags á grunni hennar.

 • Með því að sameina skjalavörslu sveitarfélaganna í eitt skjalavistunarkerfi væri þá hugsanlega hægt að ráða starfsmann í það í fullt starf?

  Án þess að þetta tiltekna starf hafi verið skoðað sérstaklega verða aukin tækifæri til sérhæfingar ýmissa starfa.

 • Er möguleiki á að sundlaug verði í Skútustaðahreppi?

  Það er möguleiki og verður ákvörðun nýrrar sveitarstjórnar, hvort sem af sameiningu verður eða ekki. Mögulega eykst fjárfestinga- og rekstrargeta í sameinuðu sveitarfélagi, sem eykur líkurnar.

 • Hvar á stjórnsýslan að vera og á að byggja upp þjónustukjarna?

  Áætlað er að skrifstofur verði þar sem þær eru núna. Í aðalskipulagi sveitarfélaganna er gert ráð fyrir nokkrum byggðarkjörnum.

 • Mun sameinað sveiterfélag ekki þurfa að fækka starfsfólki?

  Það er ekki gert ráð fyrir fækkun starfsmanna, frekar að þeim fjölgi í það minnsta tímabundið meðan breytingarnar ganga í gegn.

 • Hefði ekki verið viturlegt að fresta kosningu um sameiningu, þar sem fólk hefur lítið komið saman til að ræða þessi mikilvægu mál vegna covid?

  Kosningarnar áttu að fara fram í mars, en var frestað til júní vegna faraldursins. Samráðið hefur verið víðtækt og gengið vel þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Nú er mánuður til stefnu og verið að létta samkomutakmarkanir.

 • Er ekki máluð of falleg mynd af sameininguni, það á engu að breyta og reka alla skóla og félagsheimili ofl. áfram? Er það raunhæft?

  Í ljósi þess hve samstarfið er mikið, er ólíklegt að það verði miklar breytingar á nærþjónustu, sköttum og gjöldum. Helstu breytingar verða í stjórnsýslu ef af sameiningu verður.

 • Hvernig verður tryggt að í nefndum sveitarfélagsins sitji einstaklingar frá mismunandi svæðum?

  Það verður ekki tryggt, en líkurnar aukast með fleiri með fulltrúum. Framboðin hafa hagsmuni af því að ná til íbúa af öllu svæðinu.

 • verða skólar og leikskólar sameinaðir?

  Lagt er upp með að skólar og leikskólar starfi áfram á þeim stöðum þar sem þeir eru nú. Samrekstur skóla og leikskóla t.d. þar sem þeir eru undir sama þaki er viðfangsefni sem sífellt er til skoðunar, en ákvarðanir teknar með hagsmuna barnanna í fyrirrúmi.

 • Hvers vegna ætti sameinað sveitarfélag að eiga auðveldara með að þrýsta á betri vegi? Þau gætu krafist þeirra án sameiningar.

  Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir samgöngubótum og orðið ágengt með mörg verkefni. Reynslan hefur sýnt að stærri og sameinuð sveitarfélög hafa átt auðveldar með að koma sínum hagsmunamálum á dagskrá, og fylgja þeim eftir við Alþingi og ríkisstjórn.

 • Með sameiningu sveitarfélaga, verður enn hægt að reka öll félagsheimilin sem munu falla undir allt þetta svæði?

  Það er ákvörðun nýrrar sveitarstjórnar, en framtíðarsýn nefndarinnar byggir á því að varðveita sérstöðu hvers svæðis fyrir sig. Það er áskorun fyrir svæðið að reka mörg mannvirki.

 • Hvers vegna er jákvætt að hafa landfræðilega stærsta sveitarfélagið?

  Það er mikil áskorun að reka þjónustu í landræðilega stóru sveitarfélagi. Hið jákvæða er að Alþingi og ríkisstjórn geta ekki komið sér undan því að hlusta á forsvarsfólk 11% af Íslandi.

 • Það er mikið talað um samráð í gegnum tæknina, en nú er hluti íbúa sem ekki hefur mikla tæknifærni, eldri borgarar. Þarf ekki að tryggja að þeirra raust heyrist?

  Það er stefnt að fjölbreyttum leiðum. Bæði rafrænum og augliti til auglitis. Rafrænar leiðir hafa opnað aðgang fyrir hópa sem mæta ekki vel á fundi, svo sem fjölskyldufólk. Reynslan sýnir að eldri borgarar eru fljótir að læra á tæknina.

 • Er búið að eyrnamerkja þessar 400-500 milljónir sem nýja sveitarfélagið fær?

  Hluti fjármagnsins mun fara í niðurgreiðslu skulda og hluti í að þróa nýja þjónustu og stjórnsýslu. Ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti og hve mikið fé fer til hvers verkefnis.

 • Hvenær tekur sameiningin gildi ef hún verður samþykkt?

  Ef sameiningin verður samþykkt tekur hún gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sem haldnar verða í maí 2022. Gildistakan yrði í júní þegar ný sveitarstjórn tekur við stjórnartaumunum.

 • Er búið að ákveða nýtt heiti á sameinað sveitafélag Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit?

  Ný sveitarstjórn mun taka ákvörðun um nýtt heiti, en fyrirliggjandi eru niðurstöður skoðanakönnunar þar sem heitið Þingeyjarsveit fékk mestan stuðning. 

  https://www.thingeyingur.is/is/thjonusta/frettir/mestur-studningur-vid-heitid-thingeyjarsveit 

Getum við bætt efni síðunnar?