Vinna við Þingeying komin aftur á skrið

Í endurskoðaðri áætlun Þingeyings er gert ráð fyrir að samráð við íbúa fari fram í viku 40.
Í endurskoðaðri áætlun Þingeyings er gert ráð fyrir að samráð við íbúa fari fram í viku 40.

Vinna við Þingeying er komin aftur á skrið eftir sumarleyfi. Vinna starfshópa er langt komin, en henni var frestað vegna þeirra fjöldatakmarkana og sóttvarnarráðstafana sem gripið var til í vor vegna Covid-19. Gert er ráð fyrir að starfshóparnir skili niðurstöðum sínum til samstarfsnefndar fyrir lok ágústmánaðar. Þá hefst vinna samstarfsnefndar við að stilla upp hugmynd að framtíðarsýn fyrir sameinað sveitarfélag sem síðar er fyrirhugað að verði kynnt fyrir íbúum.

Í endurskoðaðri áætlun verkefnisins er gert ráð fyrir að haldnir verði íbúafundir í viku 40 (28.9-2.10.) þar sem niðurstöður starfshópa og framtíðarsýn yrðu kynntar og leitað eftir sjónarmiðum íbúa. Vegna þeirrar óvissu sem nú er aftur uppi um samkomutakmarkanir og sóttvarnir, hefur samstarfsnefndin ákveðið að skoða aðrar leiðir að íbúasamráði, þannig að þeir sem það vilja geti átt þess kost að kynna sér verkefnið og koma sjónarmiðum sínum á framfæri eftir öðrum leiðum. Nánari tilhögun íbúasamráðs verður ákveðin á næsta fundi samstarfsefndarinnar.

Þess má geta að verkefnið „Nýsköpun í norðri“ er unnið í tengslum við Þingeying og sú framtíðarsýn sem þar hefur mótast mun verða nýtt við stefnumótun í atvinnu- og umhverfismálum á svæðinu hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki. Afurðir verkefnisins hafa þegar nýst og sannað gildi sitt við mótun mótvægisaðgerða við samdrætti í atvinnulífinu af völdum Covid-19.