Sameining staðfest þann 3. mars

Innviðaráðherra staðfesti þann 3. mars  sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar í eitt sveitarfélag. Með sameiningunni verður til  stærsta sveitarfélag landsins að flatarmáli, með rúmlega 1.300  íbúa.  Tilkynning þess efnis hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 270/2022.

Boða skal til sveitarstjórnarkosninga 14. maí 2022 og kjósa 9 fulltrúa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins sameinaða sveitarfélags 29. maí 2022 og á sama tíma tekur sameiningin gildi.

Ráðuneytið hefur staðfest samþykkt um stjórn og fundarsköp sameinaðs sveitarfélags Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett ný samþykkt. Staðfestingin hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.
Heiti hins sameinaða sveitarfélags verður auglýst sérstaklega, en framundan er rafræn skoðanakönnun um nýtt nafn hins sameinaða sveitarfélags.