Sameiginleg umsögn um málefni sveitarfélaga

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar samþykktu sameiginlega umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023:

„Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa þegar tekið ákvörðun um og hafið viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna er að störfum og stefnt er að atkvæðagreiðslu á vormánuðum ársins 2021. Vinnuheiti verkefnisins er Þingeyingur, sem er vísun til þess sem sameinar íbúa sveitarfélaganna.
Verkefnið Þingeyingur er í fullu samræmi þá framtíðarsýn sem sett er fram í þingsályktunartillögunni. Að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
Verkefnið byggir á þeirri sýn sveitarstjórnanna að framtíð samfélagsins byggi á aukinni sjálfbærni stjórnsýslu, samfélags, atvinnulífs og í umhverfismálum.
Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar lýsa sig mótfallnar lögþvinguðum sameiningum sveitarfélaga og benda á að þær samræmast ekki markmiðum þingsályktunartillögunar um að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstigi. Sveitarstjórnirnar hafa því tekið af skarið og ákveðið að bjóða íbúum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar að greiða atkvæði um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.
Sveitarfélögin eru nú þegar bæði undir skuldaviðmiði því sem markmið eru sett um í tillögu ráðherra. Að óbreyttu fengu því sveitarfélögin lítinn stuðning úr Jöfnunarsjóði, verði sameiningin samþykkt. Sveitarstjórnirnar fara fram á að sveitarfélög sem þegar uppfylla skilyrði hljóti umbun með einhverjum hætti.
Með sameiningu Skútustaðarhrepps og Þingeyjarsveitar yrði til samfélag sem nær yfir um 12% öllu landi á Íslandi, með yfir 1400 íbúa og mikla sérstöðu á sviði náttúruverndar og auðlindanýtingar og mikla möguleika á atvinnusköpun sem byggist á sjálfbærni. Þessa möguleika hafa sveitarstjórnirnar hug á að nýta og hafa hrint úr vör verkefni undir heitinu „Nýsköpun í norðri“ sem ætlað er að skapa víðtæka sátt um sjálfbæra stefnu á meðal íbúa og atvinnulífs.
Ætlun sveitarfélaganna tveggja er að vinna að verkefninu í nánu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila, þ.á.m. Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Matís og aðrar ríkisstofnanir sem hlut eiga að máli. Verkefnið er kjörinn vettvangur til að raungera markmið um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni t.d. í umhverfis-, orku- og matvælaumsýslu ríkisins og styrkja atvinnugrundvöll í nýsameinuðum sveitarfélögum, eins og kveðið er á um í lið 11 í aðgerðaáætluninni.
Í lið 1 í Aðgerðaáætlun 2019-2023 um stærð sveitarfélaga er sett fram markmið um að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni með því að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnar-kosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Verði sameining sveitarfélaganna samþykkt er markmiðunum náð. Þessu markmiði til stuðning eru í lið 2 sett markmið um aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga, meðal annars með breyttum úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar benda á mikilvægi þess að við setningu nýrra reglna verði horfið frá þeirri ofuráherslu sem verið hefur á jöfnun skulda við úthlutun fjármagns til sameiningarverkefna og horft til þess í meira mæli að fjármagni sé veitt til þróunarverkefna sem styðja við framtíðarsýn stefnunnar um öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Markmið um sjálfbærni félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta samfélagsins og um að þróa aðferðir, verklag og leiðir til að hagnýta stafrænar lausnir sem gera íbúum kleift að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun fyrir nærsamfélagið verður ekki náð nema til komi sérstakur stuðningur.
Sú áhersla sem verið hefur á skuldajöfnun virðist byggð á þeirri hugsun að sameining sveitarfélaga sé neyðarlausn fyrir skuldsett sveitarfélög, sem sveitarstjórnunum þykir röng og ósanngjörn gagnvart sveitarfélögum sem hafa gætt aðhalds í rekstri og greitt niður skuldir.
Sveitarstjórnirnar benda jafnframt á að mikilvægt er að aukinn stuðningur við sameiningar verði fjármagnaður með nýjum tekjustofnum til handa Jöfnunarsjóði sveitarfélaga svo hann komi ekki niður á þeirri þjónustu sem núverandi tekjur hans eiga að standa undir.“