Nýsköpun í norðri heimsækir samstarfsaðila

Heimsókn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Heimsókn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Verkefnið Nýsköpun í norðri (NÍN) kynnti nýlega afrakstur og áætlanir næstu mánaða fyrir ýmsum samstarfsaðilum. Arnór Benónýsson, Helgi Héðinsson og Jóna Björg Hlöðversdóttir sem öll eiga sæti í stýrihópi NÍN lögðu land undir fót til Reykjavíkur í þessum erindagjörðum og funduðu með samstarfsaðilum ásamt Sveini Margeirssyni, verkefnisstjóra NÍN.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var meðal þeirra sem sóttur var heim. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem heyrir undir ráðuneyti Sigurðar Inga, styrkir NÍN veglega og var sérstaklega farið yfir stöðu verkefnisins í samhengi við þátttöku íbúa í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi, en innan NÍN er lögð mikil áhersla á tækifæri sem þróa má á grunni hugmynda íbúa sveitarfélaganna.

Slík tækifæri eru viðfangsefni sex rýnihópa NÍN á sviði umhverfis, mannauðs og landnýtingar sem verða að störfum fram í apríl. Samhengi þessara málaflokka var ofarlega á baugi á fundi með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra. Á íbúafundum NÍN komu tækifæri tengd jákvæðri ímynd umhverfis margsinnis til tals og hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekið jákvætt í að samþykkja að styðja NÍN til að kanna nánar viðhorf íbúa og landeigenda til slíkra möguleika, t.d. í tengslum við stofnun þjóðgarðs á svæðinu.

Samband íslenskra sveitarfélaga, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Umhverfisstofnun, Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins og Listaháskóli Íslands voru einnig sótt heim, en þeir þrír síðast töldu munu allir taka þátt í vinnustofu rýnihópa NÍN sem fram fer 11.-12. mars nk.

Nánar má lesa um NÍN hér