Mannauðsráðgjafi hefur heimsótt flesta vinnustaði

Forgangsverkefni er að skapa sátt um nýjan vinnustað
Forgangsverkefni er að skapa sátt um nýjan vinnustað

Sigríður Indriðadóttir, mannauðsfræðingur og framkvæmdastjóri SAGA Competence leiðir verkefnið Efling mannauðs í sameiningarferli Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Í verkefninu felst meðal annars fræðsla til starfsfólks sveitarfélaganna um breytingaferli og möguleg áhrif breytinga á líðan og frammistöðu fólks. Sigríður hefur einnig á undanförnum vikum heimsótt flesta vinnustaði sveitarfélaganna og rætt við stjórnendur og lykilstarfsfólk um tækifæri og áskoranir í tengslum við sameininguna. Verkefni næstu vikna eru að greina stöðu mannauðsmála í sveitarfélögunum og leggja fram tillögu að framtíðarfyrirkomulagi mannauðsmála hjá sameinuðu sveitarfélagi.

„Það eru ótrúleg tækifæri sem fylgja þessari sameiningu.“ segir Sigríður. „Það er líka mjög dýrmætt að spjalla við starfsfólkið og hlusta á þeirra hugmyndir og væntingar um framhaldið og framtíðarsýnina. Hér er mikill og góður mannauður og fólk er virkilega tilbúið að leggja sitt af mörkum til að sameiningarferlið gangi sem best fyrir sig. Það er mikill hugur í fólki og virkilega gaman að vinna með þessu öfluga fólki sem hér býr og starfar“.