Landeigendur sjá tækifæri í tengslum við náttúruvernd í nágrenni Mývatns og Laxár

Innan verkefnisins Nýsköpunar í norðri (NÍN) er lokið frumgreiningu á viðhorfum hagaðila við Mývatn og Laxá til náttúruverndar í fortíð og framtíð til þess að öðlast skilning á samfélagslegum áhrifum verndunar á svæðinu. Vinna við verkefnið var styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Svör viðmælenda undirstrika hversu flókin og margþætt náttúruverndarmál geta verið á byggðum svæðum. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna ánægju hagaðila við Laxá með það fyrirkomulag sem hefur verið í gildi en greina má talsverða óánægju hjá Mývetningum, sem lýsa skorti á samráði og á stundum erfiðum samskiptum við náttúruverndaryfirvöld. Þó var það mat flestra viðmælenda að samskipti hafi batnað á undanförnum árum. Niðurstöður gefa einnig til kynna vilja heimamanna til að hafa strangar reglur vegna viðkvæmni lífríkis, auka samráð enn frekar, leggja áherslu á uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn (í Mývatnssveit sérstaklega) og að skipuleggja svæðið á markvissari hátt með nýtingu og verndun í huga.

Upplifun og viðhorf hagaðila við Mývatn og Laxá ríma vel við reynslu af öðrum svæðum, en samkvæmt rannsóknum þrífast verndarsvæði í byggð best ef þau eru talin hafa gildi fyrir heimamenn og stuðla að fullri þátttöku þeirra í samstjórnun auðlinda. Þegar litið er til framtíðar má því sjá fyrir sér þrjár sviðsmyndir; óbreytt ástand; breytingar á forsendum utanaðkomandi aðila; og breytingar á forsendum heimamanna. Nánar verður unnið að því að greina og byggja upp möguleika tengt náttúruvernd við Mývatn og Laxá í verkefninu Náttúruvernd í norðri, en það hefur fengið 7 milljóna styrk úr Byggðaáætlun. 

 Nánari upplýsingar: Sveinn Margeirsson, verkefnisstjóri NÍN - 680 6666