Íbúar velja milli fjögurra heita

Undirbúningsstjórn hefur yfirfarið umsagnir Örnefnanefndar um þær tillögur sem undirbúningsstjórn sendi nefndinni í febrúar. Rafrænni hugmyndasöfnun lauk þann 3. febrúar og voru átta tillögur sendar til Örnafnanefndar til umsagnar en tillögurnar voru alls 281. Örnefnanefnd mælti með þremur heitum og hefur undirbúningsstjórnin ákveðið að þau heiti verði lögð fyrir íbúa í rafrænni skoðanakönnun í apríl, auk heitisins Þingeyjarsveit. Örnefnanefnd mælti ekki með fleirtölumynd heitisins. Tillögurnar sem verða lagðar fyrir í skoðanakönnuninni eru:

-       Goðaþing

-       Laxárþing

-       Þingeyjarsveit

-       Suðurþing

Rafræn skoðanakönnun fer fram 4. – 19. apríl þar sem íbúum gefst tækifæri til að velja nafn á sameinað sveitarfélag Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Könnunin mun fara fram í samstarfi við betraisland.is, með sambærilegum hætti og hugmyndasöfnunin sem fór fram í febrúar. Þátttakendur munu skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og mun þátttökuréttur verða bundinn við þá íbúa sveitarfélaganna sem hafa náð 16 ára aldri þann 10. mars sl.